Sonja Lí keppti um helgina á FIS mótum í Geilo í Noregi

Hér er Sonja Lí í nýja SKA jakkanum
Hér er Sonja Lí í nýja SKA jakkanum

Sonja Lí Kristinsdóttir keppti um helgina á FIS mótum í Geilo í Noregi. Hún býr þar og æfir með liði NTG Geilo. Keppt var í tveimur svigmótum og tveimur stórsvigssmótum og gekk Sonju ágætlega á mótunum. Þetta vor mjög sterk mót og voru allir skíðamenntaskólar og skíða lið í Noregi mætt með sína keppendur.

Heimasíðan heyrði í Sonju og spurði hana um upplifun hennar af helginni. “Það var gott að byrja tímabilið á heimavelli. Heilt yfir vil ég meina að ég á mikið meira inni en það sem ég sýndi núna um helgina. Finn að ég þurfti að “skíða mig í gang” og finna smá sjálfstraust. Ég kláraði eitt stórsvig og eitt svig, og átti svo tvær biltur í annari ferð í hinum tveim mótunum. Smá skrámur enn ekkert alvarlegt. Það snjóaði mikið og varð aðeins heitara í veðri undir keppnis vikunni svo aðstæður voru krefjandi. Það var mikil þoka og snjókoma svo skyggnið var ekki það besta. En undir öllum þessum lausa snjó var harður og grípandi undirlag sem var gott að skíða á, það voru margir sjálfboðaliðar í sköfun sem gerði það á verkum að flestir fengu gott færi.” 

Í fyrra stórsviginu endaði hún í 28. sæti af 74. keppendum. Hún fékk fyrir það 77.90 punkta og bætti þar samanlagða punktastöðuna sína. Í seinna mótinu tókst henni ekki að klára. 

Á fyrri keppnisdegi í svigi náði hún ekki að klára en endaði seinni keppnisdag í 26. sæti af 81 keppendum. Fyrir það fékk hún 78.22 punkta sem er aðeins hærra en hennar besti árangur hingað til. 

Það er margt á döfinni hjá Sonju áður en hún fær að halda heilög jól í faðmi fjölskyldunnar.

“ Í þessum töluðu orðum er ég að klára að pakka fyrir 4 daga svig og stórsvig í Bjorli sem fer fram á fimmtudaginn til sunnudags. Og svo tveim dögum eftir það er spennandi kafli að byrja þar sem ég ætla að keyra mín fyrstu risasvigsmót sem fara fram í Trysil 18. - 21. desember. Þar verða tvö risasvig og tvö stórsvig. Þannig ég er mjög spennt fyrir því. Og svo er það beint í flug heim í jólafrí” 

Sonja er með skýr markmið fyrir komandi vetur. “Markmiðin mín fyrir komandi vetur eru fyrst og fremst að koma mér sem næst 50 punktum í bæði stórsvigi og svigi og þar af leiðandi komast inn í landslið Íslands. Ég ætla mér svo að halda í titilinn minn sem Íslandsmeistari og mögulega næla mér í fleiri titla á landsmótinu sem fer fram heima á Akureyri.”

 

Frábær skíðakona sem verður spennandi að fylgjast með í vetur.