Þegar barnið æfir snjóbretti

Hvað þarf ég að hafa í huga þegar barnið æfir snjóbretti?

Að barnið sé alltaf klætt eftir veðri. Þá þarf líka að hafa í huga að Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli liggur í 500 til 1.000 metra hæð yfir sjó og veður getur versnað þar mjög mikið á mjög skömmum tíma.

Fatnaður á fjöllum skiptist í þrjú lög:

  • Innsta lag: Ullarnærföt og hlýir sokkar. Það er mikilvægt að nærföt séu hlý og tapi ekki einangrunargildi þó að þau blotni. Þar stendur ullin framar öllum öðrum efnum.
  • Miðlag: Góð peysa og hugsanlega aukabuxur utan yfir síðbrókina. Miðlag er oft úr flísefni en stundum einnig úr ull.
  • Ysta lag: Góðar snjóbrettabuxur eða snjóbuxur og úlpa. Mikilvægt er að ysta lagið sé vatns- og vindhelt. Yfirleitt er ysta lagið líka með einangrun eins og innsta lag og miðlag.

Í snjóbrettaíþróttinni reynir á liðleika og styrk. Þá er mikilvægt að fötin okkar hefti ekki hreyfigetu. Þess vegna þurfa fötin að vera rúmgóð og þau mega ekki hefta neinar hreyfingar.

Annar fatnaður:

Vettlingar: Það er ekkert varið í það að vera kalt á höndunum í Fjallinu. Hlýir og vatnsheldir vettlingar eru mjög mikilvægur hluti búnaðar. Lúffur eru mikið hlýrri en hanskar þar sem fingurnir halda betur hita hver á öðrum í lúffum en þegar þeir eru aðskildir í hönskum. Ekki spara í lúffum!

Buff, hálskragar, grímur og hettur sem ná utan um hjálminn eru allt fatnaður sem getur verið gott að eiga þegar kalt er í veðri. Hér gildir að hver og ein/n finni það sem henni/honum finnst þægilegt.

Öryggisbúnaður:

Hjálmur: Hjálmur er skylda! Það æfir enginn snjóbretti hjá okkur nema vera með hjálm. Hjálmurinn þarf að passa og ef hann fær þungt högg þarf að skipta hjálminum út. Hjálmurinn þarf að vera CE vottaður og vera ætlaður til vetraríþrótta. Þannig eru reiðhjólahjálmar t.d. ekki viðurkenndir.

Bakbrynja: Bakbrynja er skylda! Snjóbrettaíþróttin er jaðarsport og það er vont að detta á bakið. Eftir því sem iðkendur verða betri færa þeir sig upp á skaftið og fara á box og rail. Þá er mikilvægt að allir séu með bakbrynju af réttri stærð.

Gleraugu: Góð snjóbrettagleraugu eru mikilvægur hluti búnaðar og ráða miklu um upplifun af snjóbrettaferðinni. Mikilvægast er að gleraugun passi og falli vel að andliti barnsins. Gleraugun þurfa að passa yfir hjálm, þ.e. teygjan þarf að ná utan um hjálm barnsins. Liturinn á glerinu eða linsunni þarf að vera réttur. Fyrri hluta vetrar eru flestar æfingar í rökkri eða flóðlýsingu. Við þær aðstæður þarf linsan að vera í ljósum eða björtum lit. Algengur litur á s.k. kvöldlinsum er gulur eða appelsínugulur. Þegar líður á vorið koma sólardagar og þá er gott að geta gripið í dekkri linsu. Að síðustu skiptir mjög miklu máli að móða safnist ekki innan á glerið. Við mælum með góðum gleraugum en þau eru ekki skylda.

Hlífðarbuxur: Sumir eru í hlífðarbuxum á milli innsta lags og miðlags. Hlífðarbuxur eru stuttbuxur með púðum sem hlífa rófubeini og mjaðmabeinum þegar við dettum. Hlífðarbuxur eða púðabuxur eru ekki skyldubúnaður.

Úlnliðsspelkur: Meiðsli á höndum og úlnliðum eru á meðal þeirra algengari við snjóbrettaiðkun. Til að forðast slík meiðsli fá allir iðkendur kennslu í því hvernig best er að haga sér þegar við dettum. Spelkur geta líka komið að góðum notum við að vernda úlnliðina. Spelkur eru ýmist lausar eða hluti af vettlingum. Lausar spelkur eru notaðar undir vettlingum. Úlnliðsspelkur eru ekki skylda.

Snjóbretti og snjóbrettabúnaður:

Snjóbretti: Brettið þarf að vera af réttri stærð og stífleika. Algeng viðmið er að lengdin á brettinu sé einhvers staðar á milli augabrúna og höku eða efri hluta brjóskassa þegar barnið stendur og heldur á brettinu uppréttu. Hér þarf þó að taka tillit til fleiri þátta eins og getustigs barns, þyngdar þess og stífleika og breiddar brettis. Leitið til þjálfara eða reyndari foreldra þegar stendur til að kaupa bretti. Allir eru til í að hjálpa og veita ráð. Ef brettið er of lítið eða of stórt eða hentar ekki getustigi barnsins á barnið erfiðara með að læra á brettið og beita því rétt. Þannig hamlar bretti sem ekki er af réttri stærð framförum. Í versta falli getur bretti af rangri stærð drepið niður áhugann á íþróttinni.

Snjóbrettaskór: Hér gildir Gullbrárreglan! Skórnir mega ekki vera of litlir (því þá verður barninu kalt á fótunum) og ekki of stórir (því þá sitja þeir ekki nógu þétt á fætinum).

Undirbúningur fyrir æfingu:

Mæta tímanlega! Þjálfarar hitta hver sinn hóp við Skíðahótelið og fylgja svo sínum hóp á sinn stað í Fjallinu. Við æfum út um allt fjall og fyrirfram er ekki hægt að segja til um það hvar í fjallinu hver hópur verður. Það er því EKKI hægt að mæta seint og finna hópinn sinn. Ef vitað er að barn muni mæta of seint getur þjálfari mælt sér mót við barnið með forráðamanni þess.

Gæta að því að vera búin/n að borða og fara á snyrtinguna áður en mætt er á æfingu.

Gæta að því að lyftupassinn sé á sínum stað í lyftupassavasa í úlpunni. Lyftupassi er innifalinn í æfingagjöldum og án hans fær barnið ekki aðgang að lyftunum á svæðinu.

Börn sem þurfa sérstakan stuðning

Ef barnið þarf aðstoð í skólanum sbr. stuðningsfulltrúa, þarf foreldri eða forráðamaður að fylgja því á æfingum í það minnsta fyrst um sinn eða þar til þjálfari segir annað. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja öryggi barnsins og að því líði vel á meðan það er að kynnast þjálfurum og þeir að kynnast barninu.

Eftir æfingu:

Mikilvægt er að þurrka allan búnað strax við heimkomu úr Fjallinu. Ef skórnir blotna er gott að taka hlífðarsokkinn innan úr þeim og setja hann á ofn. Athugið að það á alltaf að forðast það að þurrka gleraugu að innan með klút. Best er að snjóbrettagleraugu fái að þorna á hlýjum og vel loftræstum stað. Ef nauðsynlegt reynist að þrífa gleraugun er mikilvægt að fara eftir leiðbeiningum framleiðenda svo að linsan og húðin á henni skemmist ekki. Ef þarf að strjúka af gleraugunum utanverðum ætti aðeins að nota til þess fjöltrefjaklútinn sem fylgdi gleraugunum við kaup.

Það þarf að hugsa vel um snjóbrettið sjálft. Neðan á brettinu er vaxhúð sem þarf að hirða um. Vaxhúðin máist smám saman af brettinu við notkun og brettið þornar. Bretti sem er orðið þurrt verður stamt og rennur verr. Það er því nauðsynlegt að vaxa eða vaxbera bretti reglulega og æskilegt er að vaxa bretti ekki sjaldnar en eftir ca 10. hverja notkun. Góð umhirða lengir líftíma brettisins, viðheldur endursöluverðmæti þess og tryggir skemmtilegri upplifun í Fjallinu. Þjálfarar og reyndari foreldrar geta leiðbeint um umhirðu á brettinu. Þá eru aðilar sem gefa sig út fyrir að vaxbera bretti gegn greiðslu. Ef djúpar rispur koma í botn brettisins getur þurft að gera við þær áður en brettið er vaxborið. Leitið ráðgjafar hjá þjálfurum ef djúpar rispur myndast.

Hverju barni þarf að fylgja fullorðinn einstaklingur sem getur tekið þátt í því sem barnið er að gera. Ýmis mót eru haldin yfir veturinn og þurfa þá foreldrar að aðstoða til við þau. Verkefnin eru einföld en oft óttumst við fyrst það sem við þekkjum ekki svo við mælum með að þið mætið og lærið af þeim reyndari. Vinna við mót er skemmtileg og þar gefst vettvangur til að hitta aðra foreldra. Þeir sem ekki eru á skíðum eða snjóbrettum fá far með stólnum upp og niður aftur. Hægt er að stoppa stólinn alveg á meðan sest er í hann og farið úr.