Þegar barnið æfir snjóbretti

Þegar barnið æfir snjóbretti

Hlutverk foreldra: Skíðafélagið er rekið af foreldrum eins og allt er varðar utanumhald um æfingar og þjálfara, skipulag og framkvæmd móta, öryggismál, félagösstörf og annað er borið uppi af sjálfboðaliðastarfi foreldra. Þegar barn er skráð til æfinga hjá SKA er það yfirlýsing foreldra um að koma að starfi félagsins á einhvern hátt. Öll aðstoð er vel þegin - ekki hika við að hafa samband við formann SKA eða aðra í stjórn félagsins eða í stjórn alpa.- göngu eða brettadeild (nánari upplýsingar hér) til að ræða hvernig þú getur komið að starfi félagsins. Það er gefandi, hressandi og skemmtilegt að starfa saman í SKA. Vinna við mót er skemmtileg og þar gefst vettvangur til að hitta aðra foreldra. Þeir sem ekki eru skíðandi fá far með stólnum upp og niður aftur. Hægt er að stoppa stólinn alveg á meðan sest er í hann og farið úr.
 
Stór liður í starfi félagsins er mótahald en þegar mót eru haldin þá þurfum við á öllum okkar mannaskap að halda. Þú þarft hvorki að kunna á skíði né vita í hverju það felst að halda mót - helstu verkefnin sem við þurfum að manna á mótum eru þessi: 
 
 • Brautarvarsla: Fylgjast með þegar keppendur fara í gegnum brautina. Hvort sem er í Slopestyle eða Boardercross. Í boardercross þarf að fylgjast með því að keppendur fari réttum megin í gegnum hliðin. Ef ekki þarf að láta vita því viðkomandi er dæmdur út.
  Í slopestyle skiptir máli að vera til staðar ef keppandi dettur. Þá þarf að aðstoða viðkomandi keppanda hvort sem hann heldur áfram eða hættir keppni. Ef alvarleg meiðsli koma upp er kallað á sjúkragæslu.
 • Undirbúningur og frágangur við mót: M.a. þarf að láta börnin hafa númer og merkja við hver eru mætt. Aðstoða við að bera stangir og koma upp starti og marki. Taka á móti börnunum og fá vestin til baka og ýmis önnur tilfallandi verkefni.
 • Það þarf einnig að undirbúa braut með því að móta palla, laga box og fleira. ATH það er ekki ætlast til þess að allir hafi þekkingu þar en brautin er að mestu klár og reyndari aðilar aðstoða. Að undirbúa braut getur verið góð leið fyrir foreldra til að kynnast íþróttinni betur.
 • Sjoppa: Aðstoða við afgreiðslu í sjoppu. Það er alltaf einn vanur með. Á mótum SKA í Hlíðarfjalli er sjoppan einn valkostur ásamt öðrum tilfallandi störfum en á öðrum tímum sér Sjoppuhópurinn um reksturinn og að manna vaktirnar. Foreldrar geta sótt um aðgang í Sjoppuhópinn á facebook og tekið þar með þátt í fjáröflun. Fyrir hverja vakt myndast inneign upp í fjölskylduferð sem farin er ca. annað hvert ár eða inneign upp í keppnisferðir/keppnisgjöld. Ekki er hægt að fá inneign greidda út.
 • Fjáröflun; sækja styrki til fyrirtækja fyrir mótahaldi og tækjum og búnaði. 
 • Undirbúningur og frágangur við mót: M.a. þarf að láta börnin hafa númer og merkja við hver erlu mætt. Aðstoða við að bera stangir og koma upp starti og marki. Taka á móti börnunum og fá vestin til baka og ýmis önnur tilfallandi verkefni.
 • EKKI ER HÆGT AÐ HALDA MÓT ÁN FORELDRA!.

 Hvað þarf ég að hafa í huga þegar barnið æfir snjóbretti? 

 • Að barnið sé klætt eftir veðri.

  • Ullar innanundirföt, góðir sokkar, buff/gríma fyrir háls og andlit, góðir vettlingar, buff eða húfa undir hjálminn.
   Skíðabuxur og úlpa sem er heftir ekki hreyfingar barnsins.

 • Skylda er að vera með góðan hjálm, hann skal ætlaður til snjóbrettaiðkunar, er hlýr og ver barnið. Hjálmurinn þarf að vera vottaður.

 • Góð skíðagleraugu sem passa vel á andlit barnsins og í hjálminn eru nauðsynleg til að verja augu og andlit barnsins, ekki með of dökku gleri þar sem stór hluti æfinga fer fram í misjöfnum birtuskilyrðum.

 • Bakbrynja er skylda því börnin eru að leika sér á pöllum, boxum og handriðum.

  • Mikilvægt er að hún sé í réttri stærð.

 • Passa að vera búin að borða og fara á snyrtinguna áður en mætt er á æfingu.

 • Gæta þess að lyftupassinn sé á sínum stað. Lyftupassi er innifalinn í æfingagjaldi.

  • Barnið fær ekki að fara í lyfturnar nema með passann og því mjög mikilvægt að hann sé ávalt með.
 • Mikilvægt er að mæta á réttum tíma á æfingar. Þjálfarar hitta sinn hóp við Skíðahótelið og fylgja honum á sinn stað í fjallinu. Við æfum út um allt fjall og því ekki alltaf vitað fyrirfram hvar hver hópur verður.

  • Ef vitað er að barn mætir of seint á æfingu skal láta þjálfara vita og hann mælir sér mót við barnið.

 • Að barnið sé á breti sem hentar hæð þess og þyngd. Miðað er við að efri brún brettisins sé einhverstaðar á bilinu brjóstkassi-haka.

  • Of lítið bretti veldur barninu erfiðleikum að beita sér rétt, sama á við alltof stórt bretti. Betra er þó að hafa það stærra en allt of lítið.

 • Hjálmur má mega ekki vera of gamall, plast hefur ákveðinn endingartíma og verður stökkt og eiginleikar þess breytast á nokkrum árum.

  • ATH miðað er við 5 ára endingu á hjálmi.

 • Gott er að bera vax undir brettin reglulega yfir veturinn. Fáið leiðbeiningar hjá þjálfara hversu oft þarf að bera undir. Það eru ýmsir sem taka að sér að vaxa gegn greiðslu. Hægt er að prófa að auglýsa inn á síðu skíðafélagsins eða kaupa þjónustuna hjá Skíðaleigu Hlíðarfjalls eða Skíðaþjónustunni.

 • Ef barnið þarf aðstoð í skólanum sbr. stuðningsfulltrúa, þarf það fylgd foreldris á æfingum í það minnsta fyrst um sinn eða þar til þjálfari segir annað.

 • Hverju barni þarf að fylgja fullorðinn einstaklingur sem getur tekið þátt í því sem barnið er að gera. Ýmis mót eru haldin yfir veturinn og þurfa þá foreldrar að aðstoða til við þau. Verkefnin eru einföld en oft óttumst við fyrst það sem við þekkjum ekki svo við mælum með að þið mætið og lærið af þeim reyndari. Vinna við mót er skemmtileg og þar gefst vettvangur til að hitta aðra foreldra. Þeir sem ekki eru á skíðum eða snjóbrettum fá far með stólnum upp og niður aftur. Hægt er að stoppa stólinn alveg á meðan sest er í hann og farið úr