Lög félagsins

Lög félagsins

Lög Skíðafélags Akureyrar

1. gr.

Félagið heitir Skíðafélag Akureyrar, skammstafað SKA. Lögheimili þess og varnarþing er á Akureyri.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að vinna að eflingu skíðaíþróttarinnar á Akureyri, glæða áhuga almennings fyrir gildi íþróttarinnar og virkja sem flesta til þátttöku í henni.

3. gr.

Merki félagsins er mynd af stöfunum SKA í bláum litum á hvítum grunni.

4. gr.

Allir geta gerst félagar í SKA. Foreldrar/forráðamenn sem eiga börn í félaginu gerast sjálfkrafa félagsmenn. Sé félagi í skuld við félagið hefur hann ekki atkvæðisrétt á aðalfundi.

5. gr.

Félagar sem ekki greiða fyrir a.m.k einn iðkanda skulu greiða félagsgjald til félagsins. Skal félagsgjaldið ákveðið á aðalfundi ár hvert. Félagsgjald rennur til félagsins. Félagsgjald er innifalið í æfingagjöldum iðkenda.

6. gr.

Í félaginu starfa eftirfarandi nefndir:

Sérgreinanefndir:

  1. Alpagreinanefnd.

  2. Barna- og unglinganefnd 

  3. Skíðagöngunefnd.

  4. Brettanefnd.

  5. Andrésar Andarnefnd.

Sérgreinanefndir eru kosnar á aðalfundi. Nefndir skipta með sér verkum á fyrsta fundi sínum, nánari útskýringar á sérstökum hlutverkaskiptingu nefnda er að sjá í handbók félagsins.

7. gr.

Aðalfund félagsins skal halda eigi síðar fyrir lok maí ár hvert. Aðalfundur hefur æðsta vald innan félagsins og ákvörðunarrétt í öllum málum þess.

Aðalfund skal auglýsa opinberlega með minnst viku fyrirvara.

Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

8. gr.

Á dagskrá aðalfundar skal taka eftirfarandi málefni:

1) Fundarsetning, formaður.

2) Kosning fundarstjóra og fundarritara.

3) Skýrsla stjórnar.

4) Reikningar félagsins lagðir fram til staðfestingar.

5) Lagabreytingar.

6) Ákvörðun um félagsgjald

7) Kosning formanns, annarra stjórnarmanna og sérgreinanefnda

9) Önnur mál.

9. gr.

Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi. Þó öðlast lagabreytingar og ákvarðanir um stofnun nýrra nefnda því aðeins gildi að þær hljóti samþykki tveggja þriðju hluta þeirra sem atkvæða greiða, enda taki fullur helmingur þeirra sem á fundi eru þátt í atkvæðagreiðslunni.

Kosningar skulu vera skriflegar og leynilegar sé þess óskað. Falli atkvæði jafnt skal kosning endurtekin einu sinni. Verði þá aftur jafnt skal hlutkesti ráða.

10. gr.

Allir skuldlausir félagsmenn, 18 ára og eldri, hafa atkvæðisrétt, málfrelsi, tillögurétt og kjörgengi til stjórnarstarfa á aðalfundi félagsins.

11. gr.

Aukaaðalfundi félagsins má halda ef stjórn telur nauðsynlegt eða ef 10 af hundraði atkvæðisbærra félaga óska þess skriflega og tilgreina fundarefni það sem ræða skal. Auka aðalfund skal boða með sama hætti og reglulegan aðalfund. Reglur um aðalfund gilda eftir því sem við á um aukaaðalfund. Þó skulu lagabreytingar, stjórnarkjör og ákvörðun um stofnun nýrra nefnda aðeins fara fram á reglulegum aðalfund.

12. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og allt að 3 meðstjórnendum. Einn fulltrúi úr hverri sérgreinanefnd situr í stjórn félagsins sem skipaður er af viðkomandi nefnd. Fulltrúi foreldra og fulltrúi ungmenna skulu sitja a.m.k. 3 fundi á ári. Formaður skal kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Kjörtímabil stjórnarformanns er milli aðalfunda. Kjörtímabil annarra stjórnarmanna er tvö ár þó þannig að aldrei skal nema helmingur stjórnarmanna ganga úr stjórninni samtímis. 

13. gr.

Stjórnarfundi skal halda reglulega og eigi sjaldnar en mánaðarlega yfir vetrartímann og oftar ef þurfa þykir, þar með talið ef stjórnarmaður óskar þess. Formaður boðar til stjórnarfunda.

Stjórnarfundir eru löglegir er meirihluti stjórnar er mættur. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála á stjórnarfundum. Falli atkvæði jafnt, ræður atkvæði formanns.

14. gr.

Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum þess milli aðalfunda. Stjórn félagsins skal vinna að því að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess útávið. Hún skal einnig samræma starfsemi félagsins innávið og hafa eftirlit með starfsemi nefnda félagsins. Stjórnin hefur umráðarétt yfir eignum félagsins og markar stefnu þess í öllum veigamiklum málum. Hún skal þó jafnan hafa samráð við nefndir félagsins um þau mál sem varða þær sérstaklega.

15. gr.

Stjórn félagsins getur veitt , að höfðu samráði við nefndir félagsins, viðurkenningar fyrir íþróttaárangur eða störf í þágu félagsins, 16. gr.

Sérgreinanefndir félagsins skulu kosnar á aðalfundi félagsins. Stjórn félagsins ákveður verkaskiptingu milli einstakra nefnda. Nefndarmenn skulu skipta með sér verkum. Nefndir skulu skila skýrslum um starfsemi sína til stjórnar félagsins. Nefndir skulu koma saman eins oft og þurfa þykir. Formaður nefndar boðar til fundar. Formenn nefnda eiga rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétt.

16. gr.

Stjórn getur boðað til fundar með einstökum nefndum eftir því sem þurfa þykir. Stjórn getur breytt ákvörðunum nefnda ef hún telur ástæðu til. Nefnd er óheimilt að stofna til skuldbindinga nema með heimild frá stjórn  félagsins.

17. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Gera skal fjárhagsáætlun fyrir hvert starfsár þar sem gera skal grein fyrir áætlun um tekjuöflun félagsins og áætluðum rekstrargjöldum.

18. gr.

Allar eignir félagsins skulu vera í yfirumsjón stjórnar félagsins. Stjórn félagsins skal varðveita skjöl félagsins og aðra muni, s.s. verðlaunagripi, gjafir o.s.frv.

19. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði til bráðabirgða Þegar fyrsta stjórn félagsins er kosin skal kjósa fimm stjórnarmenn til eins árs en fimm til tveggja ára á næsta aðalfundi gildir síðan regla 12. gr. 

Samþykkt á stofnfundi félagsins á Akureyri 25. nóvember árið 2000

Með breytingu samþykkt 22. maí 2001, 29. nóvember 2003, 18. nóvember 200, 28. september 2009, 20. maí 2019,20. maí 2020,17. maí 2022 og 23. maí 2023.

 **Breyting á 5. grein - bætt við á aðalfundi 20. maí 2020. Fjölskylda sem greiðir fyrir a.m.k einn iðkanda hefur atkvæðarétt á aðalfundi. Aðrir sem ekki eiga börn sem iðkendur geta greitt félagsgjald og greitt atkvæði á aðalfundi.