Þegar barnið æfir skíðagöngu

Hlutverk foreldra: Skíðafélagið er rekið af foreldrum eins og allt er varðar utanumhald um æfingar og þjálfara, skipulag og framkvæmd móta, öryggismál, félagösstörf og annað er borið uppi af sjálfboðaliðastarfi foreldra. Þegar barn er skráð til æfinga hjá SKA er það yfirlýsing foreldra um að koma að starfi félagsins á einhvern hátt. Öll aðstoð er vel þegin - ekki hika við að hafa samband við formann SKA eða aðra í stjórn félagsins eða í stjórn alpa.- göngu eða brettadeild (nánari upplýsingar hér) til að ræða hvernig þú getur komið að starfi félagsins. Það er gefandi, hressandi og skemmtilegt að starfa saman í SKA. Vinna við mót er skemmtileg og þar gefst vettvangur til að hitta aðra foreldra. Þeir sem ekki eru skíðandi fá far með stólnum upp og niður aftur. Hægt er að stoppa stólinn alveg á meðan sest er í hann og farið úr.

Stór liður í starfi félagsins er mótahald en þegar mót eru haldin þá þurfum við á öllum okkar mannaskap að halda. Þú þarft hvorki að kunna á skíði né vita í hverju það felst að halda mót - helstu verkefnin sem við þurfum að manna á mótum eru þessi: 

Einn liður í starfi félagsins er mótahald en þegar mót eru haldin þá þurfum við á öllum okkar mannaskap að halda. Þú þarft hvorki að kunna á skíði né vita í hverju það felst að halda mót - helstu verkefnin sem við þurfum að manna á mótum eru þessi: 

 • Undirbúningur og frágangur við mót: M.a. þarf að setja og merkja upp marksvæðið, koma upp marki og merkja brautir. Útdeila startnúmerum og merkja við hver eru mætt. Taka á móti börnunum og taka á móti startnúmerum þegar iðkendur hafa keppt. Verkefnin geta einnig falist í tímatöku, starfi kynnis og ýmsum öðrum tilfallandi verkefnum. 

 • Brautarvarsla: Brautarverði þarf í öllum mótum. Starf þeirra felst í því að vera til staðar fyrir keppendur, passa upp á að þeir fari rétta braut og hvetja þá áfram.

 • Sjoppa: Aðstoða við afgreiðslu í sjoppu. Það getur verið að gefa keppendum hressingu eftir keppni og sumar æfingar. Einnig að selja einfaldar veitingar. Þar er einnig afgreiðsla fyrir skíðaleigu.

 • Margar hendur vinna létt verk. EKKI ER HÆGT AÐ HALDA MÓT ÁN FORELDRA!.

Í viðbót við mótahald þá manna foreldrar helgarvaktir í sjoppunni. Þar eru verkefnin að sjá um að leigja gönguskíðaútbúnað úr skíðaleigu SKA og selja léttar veitingar. 

 Hvað þarf ég að hafa í huga þegar barnið æfir skíðagöngu? 

 • Að barnið sé klætt eftir veðri.

  • Góð innanundirföt, góðir sokkar, buff fyrir háls og andlit sérstaklega ef það er kallt. Góðir vettlingar, skíðabuxur og jakki sem að heftir ekki hreyfingar barnsins. Gott er samt að klæða sig ekki of mikið því að manni hitnar fljótt við skíðagönguiðkun.

 • Gott er að vera með aukaföt eins og úlpu til að fara í eftir æfingu.

 • Passa að vera búin að borða og fara á snyrtinguna áður en mætt er á æfingu.

 • Mikilvægt er að mæta á réttum tíma á æfingar. Þjálfarar og iðkendur hittast í eða við skíðagönguhúsið í Hlíðarfjalli nema að annað sé tekið fram. Stundum fara æfingar fram í Kjarnaskógi ef að veðrið er slæmt í fjallinu.

 • Ef vitað er að barn mætir of seint á æfingu skal láta þjálfara vita. 

 • Að barnið sé á skíðum og með stafi sem að hentar bæði hæð þess og þyngd. Viðmiðið er að hefðbbundin skíði séu 15-25 cm lengri en iðkandinn (því meiri reynsla því lengri skíði) og að stafir séu 30 cm styttri en iðkandinn. Skautaskíði eru svo ca 10 cm styttri en hefðbundin skíði og stafir 10 cm lengri en hefðbundnir stafir.Þjálfarar hjálpa til við val á skíðum.Hjálmur má mega ekki vera of gamall, plast hefur ákveðinn endingartíma og verður stökkt og eiginleikar þess breytast á nokkrum árum.

 • Gott er að bera vax undir skíðin reglulega yfir veturinn. Fáið leiðbeiningar hjá þjálfara hversu oft þarf að bera undir og hvernig. Þjálfarar aðstoða að sjálfsögðu við þessi mál sem og önnur. Góð aðstaða er í skíðagönguhúsi til þess að ditta að skíðum.

 • Alveg nýjir iðkendur geta fengið skíðaútbúnað að láni hjá SKA til þess að nota og prófa og áður en skíði eru keypt. Einnig er oft hægt að fá keypt notuð gönguskíði og þá hægt að auglýsa eftir þeim á facebooksíðum SKA.