Skíðafélag Akureyrar

Skíðafélag Akureyrar er sérgreinafélag innan Íþróttabandalags Akureyrar. Í félaginu eru starfandi fagnefndir fyrir alpagreinar, skíðagöngugreinar og brettagreinar. Samkvæmt lögum félagsins er tilgangur þess að efla iðkun skíða íþróttarinnar bæði meðal keppnismanna og almennings og auka áhuga á gildi íþróttarinnar. Íþróttafélagið stendur fyrir þjálfun í íþróttinni og því er mikilvægt að samvinna og samheldni ríki meðal félagsmanna og stjórnenda deilda auk þess sem þeir kappkosti að vinna að framgangi félagsins og markmiðum. Stjórnarmenn og þjálfarar í félaginu eru hvattir til að hafa frumkvæði og stuðla að virkri og árangursríkri samvinnu. Hér er um margþætta samvinnu að ræða sem nær ekki aðeins til allra þeirra sem annast stjórnsýslu hjá félaginu, heldur einnig til iðkenda og starfsmanna. Þá nær samvinnan einnig út fyrir raðir félagsins eins og til foreldra, skóla, Íþróttabandalags Akureyrar, Íþrótta- og tómstundaráðs Akureyrar, Skíðasamband Íslands og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Stefnt er að samstarfi við önnur íþróttafélög og grunnskóla þannig að börnum og unglingum verði sköpuð tækifæri til íþróttaiðkunar á breiðum grunni.  Fjölhæf kunnátta og leikni barna í mörgum íþróttagreinum á unga aldri skilar sér í öflugum keppnis- og afreksmönnum framtíðarinnar. Það er stefna félagsins að leita samstarfs um að vera aðili að íþróttaskóla fyrir börn frá þriggja ára aldri.