Saga Andrésar leikanna

Ágrip af forsögu leikanna

Í allmörg ár komu nokkrir menn saman á kaffistofu Almennra trygginga h.f. í Hafnarstræti 100 á Akureyri. Allir höfðu þeir það sameiginlegt að vera áhugamenn um skíðaíþróttina og snerust umræður alloft um skíðamál á Akureyri, hvernig staðan væri, úrslit skíðamóta o.s.frv., enda voru þessir menn gjarnan að stússa við skíðamót í Fjallinu um helgar, eða vinna að málum Skíðaráðs Akureyrar, sem þeir voru tengdir á einn eða annan hátt á þessum tíma. Þetta voru þeir Ólafur Stefánsson, forstjóri Almennra trygginga h.f. á Akureyri, Leifur Tómasson, stórkaupmaður, Róbert Friðriksson, skrifstofumaður hjá Almennum tryggingum, Hermann Sigtryggsson, æskulýðs- og íþróttafulltrúi Akureyrarbæjar, sem hafði þá skrifstofu í húsi Almennra í Hafnarstræti 100, Ívar Sigmundsson, forstöðumaður Skíðastaða í Hlíðarfjalli, og Frímann Gunnlaugsson, eigandi Sport- og hljóðfæraverslunarinnar á Akureyri. Það var árið 1973 að til umræðu kom hjá þessum hópi að efna til barnamóts á skíðum á Akureyri fyrir allt landið. Ekki voru þá nein landsmót fyrir yngstu aldurshópana í þessari grein og svo til eingöngu keppt í þeim flokkum heima í héruðum. Töldu þeir félagar að mót sem þetta gæti orðið lyftistöng fyrir skíðaíþróttina. Ýmsir sóttu þennan kaffiklúbb heim, fengu sér kaffisopa hjá Óla Stef., tóku þátt í umræðum og lögðu inn góð orð bæði í þessu máli og öðrum. Hugmyndin um barnamót á skíðum fyrir allt landið var alllengi til umræðu í þessum hópi og var m.a. leitað umsagnar „utanaðkomandi“ aðila bæði úr röðum íþróttahreyfingarinnar og annarra aðila sem kunnugir voru mótahaldi á landsvísu. Hugmyndinni var hvarvetna vel tekið, en ekki komst þó skriður á málið fyrr en árið 1975.

Saga Andrésar Andarleikanna birtist í Skíðablaði Skíðafélags Akureyrar 2010.

Hér má lesa söguna í heild sinni