Notalegt kaffiboð á vegum Andrésarnefndarinnar í tilefni 50 ára afmælis Andrésarleikanna

Í dag, 26. nóvember, fór fram notalegt og vel heppnað kaffiboð í sal Lionsklúbbsins Hængs á Akureyri. Það var Andrésarnefndin sem bauð til þessa kaffisamsætis í tilefni þess að Andrésarleikarnir fagna 50 ára afmæli á árinu. Á myndinni hér til hægri má sjá Fjalar Úlfarsson formann Andrésarnefndarinnar bjóða gesti velkomna. 

Kaffiboðið hefur verið kærkomin hefð hjá nefndinni undanfarin ár og þá einkum haldið fyrir fyrrverandi nefndarmenn. Í þetta skiptið var hins vegar brugðið út af vananum og öllum velunnurum SKA boðið að koma og eiga góða og notalega stund saman. Samkvæmt Fjalari formanni Andrésarnefndarinnar er stefnan sú að gera meira úr leikunum nú en nokkru sinni áður og var þetta fyrsta skrefið. Velunnarar SKA megi eiga von á fleiri skemmtilegum uppátækjum frá nefndinni í aðdraganda leikanna.

Meðal gesta voru nokkrir af þeim einstaklingum sem hafa staðið að Andrésarleikunum í gegnum tíðina og gegnt mikilvægu hlutverki í uppbyggingu og þróun þessa vinsæla barnaíþróttaviðburðar. Ríkti ánægjulegt andrúmsloft, þar sem rifjuð voru upp góð minningabrot, rætt um sögu leikanna og horft björtum augum til næstu 50 ára.

Hörður Geirsson, safnvörður minjasafnsins steig í pontu og sýndi gestum brot af gömlum myndum sem hann hefur verið að safna saman undanfarin misseri. Samkvæmt Herði er hann búinn að skanna inn einar 3000 gamlar myndir með það að markmiði að útbúa myndabanka sem verður aðgengilegur öllum. Hörður kallaði eftir aðstoð og biðlaði til allra þeirra sem sitja á gömlum myndum, sem tengjast Andrésarleikunum, að hafa samband við sig og styðja hann í að tryggja að minningarnar um frábæra tíma lifi.

Það var svo Ívar Sigmundsson, fyrrverandi afreksmaður í alpagreinum, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli í áratugi og einn af upphafsmönnum Andrésarleikanna, sem steig í pontu og sagði nokkur orð. Hann sagði stutta sögu frá skipulagningu leikana og ef undirritaður skildi hann rétt þá voru eftirfarandi orð látin falla á sínum tíma: “Við gerum þetta bara einu sinni, og svo aldrei aftur.” Sú varð sem betur fer ekki raunin og framundan eru stærstu Andrésarleikarnir frá upphafi.

Andrésarnefndin þakkar öllum gestum kærlega fyrir komuna og stuðninginn í gegnum árin. 

Á myndinni má sjá Andrésarnefndina: F.v. Kári Jónsson,  Fjalar Úlfarsson, Kristinn Magnússon, Magnús Finnsson, Una M. Eggertsdóttir, Inga Rakel Ísaksdóttir, Kristrún Lind Birgisdóttir og Gísli Einar Árnason.