.
Þrefaldur Íslandsmeistari og fremsta svigkona landsins Akureyringurinn Katla Björg Dagbjartsdóttir leggur skíðin á hilluna eftir þrálát meiðsli.
Landsliðskonan Katla Björg hefur verið að glíma við höfuðmeiðsli síðastliðna 17 mánuði eftir að hún rotaðist á æfingu daginn fyrir Skíðamót Íslands 2022. Þrálátir verkir og vanlíðan hafa gert það að verkum að hún tekur þá ákvörðun að hætta og setja heilsuna í fyrsta sæti.
Á ferlinum tók Katla Björg þátt á tveimur Heimsmeistaramótum fullorðinna, þar náði hún besta árangri íslenskra kvenna í stórsvigi í Cortina árið 2021 og hafnaði í 34. sæti. Einnig hefur hún tekið þátt á tveimur Heimsmeistaramótum unglinga. Katla Björg sigraði tvö alþjóðleg svigmót fullorðinna á erlendri grundu og hafnaði sex sinnum á verðlaunapalli á slíkum mótum. Auk þess sigraði Katla Björg fjölmörg bikarmót á Íslandi á ferlinum ásamt því að vera margfaldur unglingameistari sem og bikarmeistari. Síðastliðið vor landaði hún svo þremur Íslandsmeistaratitlum í fullorðins flokki, svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni.
Það er mikilvægt fyrir yngri iðkendur skíðafélagsins að eiga góðar fyrirmyndir eins og Katla hefur ávallt verið. Skíðafélagið óskar Kötlu velfarnaðar í því sem hún tekur sér fyrir hendur.
Katla Björg vill koma á framfæri þökkum til styrktaraðila, þjálfara, liðsfélaga, keppinauta og annarra sem stutt hafa við bakið á henni í gegnum árin.
Fyrir hönd skíðafélagsins
Fannar Gíslason
Formaður
pósthólf 346 - 602 Akureyri
kt. 480101-3830
Banki Íslandsbanki
Reikningur nr. 0565-26-5099
skaakureyri@gmail.com
.