Gígja, Isak og Ragnar tóku þátt í Skandinavisk Cup um helgina

3 iðkendur frá SKA kepptu á Skandinavisk Cup í Östersund í Svíþjóð núna um helgina. Skandinavisk cup er sterk mótaröð og sú sterkasta á eftir World Cup. 

Þau Gígja Björnsdóttir, Isak Stianson Pedersen og Ragnar Gamalíel Sigurgeirsson frá SKA tóku öll þátt og stóðu sig vel. 

Á föstudag var keppt í sprettgöngu og voru Isak og Ragnar með þar. Isak, sem er með bestu punktastöðuna af Akureyringunum, fékk þar 187 FIS-punkta og Ragnar 218 punkta og er Ragnar með stórbætingu á heimslista. 

Keppnunum sem fara áttu fram á laugardeginum var aflýst út af kulda.

Á sunnudeginum kepptu konurnar í 10 km skíðagöngu og karlarnir í 15 km skíðagöngu með frjálsri aðferð. Þar stóðu þau sig mjög vel. Isak fékk fyrir sína göngu 137 punkta, sem er ekki langt frá því að bæta sig á lista. Ragnar fékk 232 FIS-punkta og bætti sig á heimslista og síðan heldur Gígja áfram að koma á óvart, átti stórgöngu og náði í 205 FIS-punkta. Ekki eru mörg ár síðan Gígja söðlaði um frá alpagreinum og yfir í skíðagöngu og hefur hún bætt sig gríðarlega á stuttum tíma. Ragnar byrjaði einnig í fyrra að keppa aftur í skíðagöngu eftir að vera búinn að leggja stund á knattspyrnu í ansi mörg ár. 

Það verður gaman að fylgast með þessum iðkendum í framtíðinni.