Fréttir af Gígju

Nú er allt í einu farið að sjá fyrir lok keppnis tímabilsins sem hefur liðið allt of hratt eins og venjulega. Eftir áramót hef ég verið mikið á ferðalagi, en í byrjun janúar keppti ég á  Scandinavian cup í Svíþjóð þar sem ég átti ágætis 10 km göngu. Ég var samt aðallega stolt af því að hafa ratað í mark því brautin var óvenju flókin, en það voru gengnir þrír mismunandi hringir. Í lok janúar fór ég í Evrópuferðalag með Alberti og Degi liðsfélögum mínum. Við byrjuðum ferðalagið á austurrísku bikarmóti í Ramsau þar sem var tekið vel á móti okkur. Í Ramsau mætti okkur mjög íslenskt veður og áttum við krefjandi og skemmtilegar göngur þar. Svo keyrðum við til Planica í Slóveníu þar sem við kepptum í Alpen Cup. Planica er frábær skíðastaður í Júlísku ölpunum þar sem HM á næsta ári verður haldið. Þar var mjög gaman að vera,  þrátt fyrir að allt hafi gengið á afturfótunum hjá mér þá helgi og úrslitin ekkert til að monta sig af. Í lok febrúar keppti ég svo á lettnenska meistaramótinu í Priekuli. Það var góð upplifun í erfiðum brautum og erfiðu færi, og enn og aftur í íslensku veðri. Síðan var það  Norges Cup í Steinkjer 11.-13. mars og svo er ég komin á skíðaveislu  á Scandinavian Cup á Akureyri. Síðan verður það Skíðalandsmót og Fossavatnsgangan sem ég hlakka mikið til.

 

Kveðja,

Gígja