.
Fjallaskíðadeild SKA býður upp á æfingarhóp fullorðinna tileinkaðan fjallaskíðum. Skráning er hafin og hefjast vikulegar æfingar fimmtudaginn 20. janúar í Hlíðarfjalli. Hópurinn hefur það að markmiði að fá saman fjallaskíðafólk, byrjendur og lengra komna, í skemmtilegan æfingarhóp sem hittist á skíðum og fer á fjöll undir leiðsögn reyndra þjálfara og leiðsögumanna. Kennt verður tvisvar til þrisvar í viku frá 20. janúar og fram til 7. maí. Æfingar eru á mánudögum og fimmtudögum en auk þess verður farið í lengri ferðir annan hvern laugardag.
Fjallaskíðaæfingarnar eru frábært tækifæri til að kynnast fjallaskíðum, skíða utanbrauta og fá betri skilning á snjóaðstæðum og snjóöryggi. Æfingarnar eru ekki bara fyrir skíðafólk heldur er snjóbrettafólk á göngubretti (splitboard) einnig velkomið! Fjallaskíðahópur SKA á við allt skíða- og snjóbrettafólk sem langar að fjallaskíða í vetur og hvetjum við alla til að skrá sig með okkur á fjöll í vetur!
Miðað er við að æfingar á virkum dögum fari fram í nágrenni Akureyrar og verður skíðasvæðið í Hlíðarfjalli nýtt til æfinga auk annara nærsvæða. Á mánudögum og fimmtudögum verða æfingar frá 17:00-18:30. Á laugardögum verða farnar lengri ferðir, annan hvern laugardagsmorgun og komið til baka upp úr hádegi. Þær æfingar eru þriggja til sex klukkutíma og þátttakendum kynnt ýmis fjöll og svæði á Tröllaskaga. Allar ferðir og æfingar eru settar upp reyndum þjálfurum og leiðsögumönnum og eru skipulagðar sem sambland af göngu, utanbrautaskíðun og snjóflóðaöryggi.
Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér dagskrá vetursins. Vetraræfingagjald sem gildir á allar æfingar kostar 57.990. Þá verður einnig hægt að kaupa stök skipti og 10 skipta kort og hentar það þeim sem vilja vera með en búa utan Akureyrar og komast sjaldan. Allir þátttakendur þurfa í upphafi að skrá sig sem meðlimi á Sportable og geta þá skráð sig fyrirfram á hverja æfingu. *****Þeir sem sýna kvittun fyrir vetraræfingagjöldum fá 10% afslátt af vetrarkorti í Hlíðarfjalli (það er ekki hægt að fá endurgreitt ef búið er að kaupa vetrarkort).
Á mánudögum er tekið á móti nýjum meðlimum og farið yfir grunnatriði. Mælt er með að fólk eigi vetrarkort í Hlíðarfjalli þar sem lyftur eru notaðar til æfinga og að koma okkur sem fyrst í brekkurnar.
Ekki missa af frábærri 15 vikna dagskrá sem er stútfull af flottum æfingum og ferðum.
Nánari upplýsingar um Fjallaskíðadeild er á heimasíðu SKA https://www.skidi.is/is/fjallaskidadeild
Á fjallaskíðum er hægt að er að ganga upp fjalllendi með skíðin undir sér. Þau sökkva síður í snjóinn og með því að hafa skíðin á fótunum losnar fólk við þyngdina að bera skíðin upp á bakpokanum. Skíðin virka síðan eins og venjuleg skíði þegar kemur að því að renna sér niður! Kosturinn við fjallaskíði er að þú ert ekki bundinn við skíðasvæði og getur í raun valið þér hvaða fjall sem er til að skíða niður. Helsti munurinn er að á þeim fjöllum eru engar troðnar brekkur og þú þarft að finna leiðina sjálfur. Mikið ævintýri felst í þessu og mjög gaman er að spreyta sig í mismunandi snjóaðstæðum. Vegna þessa er lögð mikil áhersla í fjallaskíðaþjálfun á öryggi, eigin búnað, snjóalög og snjóflóðabúnað auk þess sem þekking á landslagi og snjóflóðabjörgun er nauðsynleg. Á æfingum fjallaskíðadeildarinnar er vel farið yfir alla helstu þætti við leggjum áherslu á að þetta sé samofið inn í allar æfingar og ferðir.
pósthólf 346 - 602 Akureyri
kt. 480101-3830
Banki Íslandsbanki
Reikningur nr. 0565-26-5099
skaakureyri@gmail.com
.