Dan Brynjarsson fær heiðursviðurkenningu ÍBA sem dyggur sjálfboðaliði í íþróttahreyfingunni á Akureyri

Dan Brynjarsson tekur við heiðursviðurkenningu ÍBA
Dan Brynjarsson tekur við heiðursviðurkenningu ÍBA

Þann 31.janúar síðastliðinn fór fram Íþróttahátíð Akureyrar í Hofi við hátíðlega athöfn. SKA ásamt öðrum undirfélögum ÍBA var veitt viðurkenning fyrir Íslandsmeistaratitla ársins 2023, Sonju Lí Kristinsdóttur var veittur styrkur úr Afrekssjóði Akureyrar og íþróttakarl og kona voru krýnd. 

Á hátíðinni veitti Fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrar heiðursviðurkenningar til dyggra sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni á Akureyri. SKA hefur í gegnum áranna rás verið afar ríkt af traustum og metnaðarfullum sjálfboðaliðum. Sjálfboðaliðar sem koma ár eftir ár og leggja hönd á plóg við rekstur félagsins, vinna við mótahald og svo mætti lengi telja. Fyrir það er vert að þakka. 

Dan Brynjarsson, sjálfboðaliði og félagi í SKA var veitt heiðursviðurkenning á íþróttahátíðinni, við hjá SKA óskum honum og fjölskyldu hans innilega til hamingju með viðurkenninguna, enda hún vel verðskulduð. 

Hér má lesa stutt ágrip um störf Dans í þágu Skíðafélags Akureyrar:

Dan Jens Brynjarsson er fæddur á Akureyri 17. janúar 1960. Dan Brynjarsson hefur verið óþreytandi við að styðja við starfsemi skíðafélagsins lengur en elstu menn muna. Dan hefur varið óteljandi dögum, vikum og mánuðum við að tryggja að mótahald í alpagreinum standist ítrustu kröfur af mikilli fagmennsku. Framlag Dans til Skíðafélags Akureyrar hefur verið ómetanlegt og óeigingjarnt og náð langt umfram það sem gæti talist eðlilegt framlag og þrátt fyrir að börn Dans væru löngu hætt að æfa skíði hélt Dan áfram að vera lykilmaður í mótahaldi alpagreina árum saman. Ástríða Dans fyrir skíðaíþróttinni hefur verið öðrum fyrirmynd og framkoma hans við iðkendur verið þeim hvatning, enda hefur hann lagt sig fram við að þekkja iðkendur og hvetja áfram við hvert tækifæri. Það er óhætt að fullyrða að framlag, dugnaður og hollusta Dans til skíðaíþróttarinnar á Akureyri á síðustu áratugum hafi verið framúrskarandi.