Einar Árni með miklar bætingar á fyrsta móti vetrarins.

Skíðagöngumaðurinn Einar Árni Gíslason frá SKA keppti á sínu fyrsta móti í vetur í Olos í Finnlandi núna um helgina.  Mótið var gríðarsterkt með þátttakendum frá 20 þjóðum og keppendum sem hafa reglulega tekið þátt í heimsbikarmótum í skíðagöngu.

Á laugardaginn var keppt í 10 km með hefðbundinni aðferð þar sem Einar kom í mark í 70. Sæti.  Fyrir gönguna fékk hann 86,45 FIS stig sem er mjög mikil bæting á fyrri árangri, en fyrir átti hann bestu göngu upp á 149,17 FIS stig.

Í dag voru svo gengnir 10 km með frjálsri aðferð þar sem Einar hafnaði í 75. sæti og fékk 147,29 FIS stig. 

Sannarlega góð byrjun á keppnistímabilinu hjá Einari  Árna.  Skíðagöngulandsliðið heldur svo til Gällivare í Svíþjóð þar sem keppt verður um næstu helgi.